• þri. 13. okt. 2009
  • Landslið

Sigur á Suður Afríku í Laugardalnum

Byrjunarlið Íslands gegn Suður Afríku í október 2009
Byrjunarlid-Sudur-Afrika-oktober-2009

Íslendingar lögðu Suður Afríku að velli í vináttulandsleik í kvöld en leikið var á Laugardalsvelli.  Lokatölur urðu 1 - 0 og kom sigurmarkið í síðari hálfleik og var Veigar Páll Gunnarsson þar á ferðinni.

Liðin þreifuðu fyrir sér í heldur rólegum fyrri hálfleik og var frekar lítið um marktækifæri.  Næst komust Íslendingar því að skora þegar Veigar Páll Gunnarsson átti gott skot úr aukapyrnu sem að markvörður gestanna varði naumlega með fætinum.  Gestirnir enduðu fyrri hálfleikinn hinsvegar betur en íslenska liðið sem kom hinsvegar ákveðnara til leiks í síðari hálfleiknum og hafði undirtökin meirihluta hans.  Það bar árangur strax eftir fjórar mínútur í síðari hálfleiknum þegar Veigar Páll skoraði gott mark með lúmsku skoti.  Íslenska liðið hafði svo undirtökin en Suður Afríkumenn bættu í sóknina undir lok leiksins og sóttu síðustu mínúturnar án þess þó að skapa opin tækifæri.

Íslenska liðið fagnaði því sigri í leikslok fyrir framan 3.253 áhorfendur á Laugardalsvellinum í kvöld, leikurinn ekki sá tilþrifamesti en sigurinn góður.

Þetta var síðasti leikur landsliðsins á heimavelli á þessu ári en framundan eru tveir vináttulandsleikir ytra í nóvember.  Farið verður til Íran 10. nóvember og leikið þar og svo leikið við Lúxemborg fjórum dögum síðar.