• þri. 13. okt. 2009
  • Landslið

Baráttusigur á Norður Írum hjá U21 karla

U21 landslið karla
ksi-u21karla

Strákarnir í U21 lögðu Norður Íra að velli í dag í undankeppni EM en leikið var í Grindavík.  Lokatölur urðu 2 - 1 Íslendingum í vil eftir að staðan hafði verið markalaust í leikhléi.

Þetta var mikil baráttuleikur í Grindavík í dag og hvergi gefið eftir.  Fyrri hálfleikur bauð ekki upp á opin færi framan af en íslenska liðið sótti hinsvegar í sig veðrið seinni hluta leiksins og ógnað marki Norður Íra.  Staðan hinsvegar markalaus er flautað var til leikhlés.

Hlutirnir fóru hinsvegar að gerast í síðari hálfleiknum og Jóhann Berg Guðmundsson kom íslenska liðinu yfir eftir góða sókn á 56. mínútu.  Heimamaðurinn Jósef Kristinn Jósefsson bætti svo við öðru markinu á 70. mínútu en hafði komið inn sem varamaður skömmu áður.

Gestirnir lögðu hinsvegar ekki árar í bát suður með sjó og minnkuðu muninn á 80. mínútu og urðu lokamínúturnar því spennandi fyrir vikið.  Sigrinum var hinsvegar fagnað vel í leikslok enda baráttusigur af bestu gerð.  Þrjá sterka leikmenn vantaði í hópinn vegna veikinda en maður kom í manns stað og hefur U21 liðið því náð sér í níu stig eftir fjóra leiki og eru í öðru sæti riðilsins á eftir Tékkum. 

Strákarnir eiga eftir að leika einn leik á þessu ári í undankeppni EM en þá sækja þeir San Marínó heim og fer sá leikur fram 13. nóvember ytra.