• fös. 09. okt. 2009
  • Landslið

Öruggur sigur Íslands á San Marínó

Byrjunarlið Ísland í rigningunni á Laugardalsvelli
Isl_SanMarino2009

Íslendingar unnu öruggan sigur á liði San Marínó í undankeppni EM U21 karlalandsliða í kvöld en leikið var á Laugardalsvelli.  Lokatölur urðu 8 - 0 eftir að staðan í hálfleik hafði verið 4 – 0 Íslandi í vil.

Sigurinn var aldrei í hættu hjá íslenska liðinu en leikmenn liðsins komu ákveðnir til leiks og komust yfir strax á fjórðu mínútu með marki frá Jóhanni Berg Guðmundssyni.  Í kjölfarið fylgdu svo mörk frá Hólmari Eyjólfssyni og Rúrik Gíslasyni áður en Jóhann Berg bætti við öðru marki sínu og staðan góð er gengið var til leikhlés.

Gestirnir þéttu hjá sér varnleikinn í síðari hálfleiknum og það var ekki fyrr en 14 mínútur voru eftir af leiknum að fimmta markið lét á sér kræla en það gerði fyrirliðinn Rúrik Gíslason úr vítaspyrnu.  Almarr Ormarsson bætti svo sjötta markinu við skömmu síðar.  Jóhann Berg fullkomnaði þrennu sína með sjöunda marki Íslands á 87. mínútu og Kristinn Steindórsson gerði áttunda markið á 90. mínútu þegar hann fylgdi eftir þrumuskoti frá Andrési Má Jóhannessyni sem hafnaði í þverslánni.Rauðhærður vallarstarfsmaður að störfum fyrir leik Íslands og San Marínó U21 karla í október 2009

Mynd: Verið að gera völlinn kláran fyrir leikinn í kvöld en það rigndi duglega rétt fyrir leik.

Góður sigur íslenska liðsins á Laugardalsvelli en leikið var við nokkuð erfiðar aðstæður, mikið rigndi á meðan leiknum stóð og nokkur vindur en íslenska liðið lék hinsvegar vel í leiknum. 

Þeir tæplega 200 áhorfendur er mættu á leikinn héldu ánægðir út í vindbarið haustkvöldið undir einlægri hvatningu frá vallarþulnum um að mæta á næsta leik liðsins er verður í Grindavík á þriðjudaginn kl 15:00. 

Þess má geta að þetta er stærsti sigur hjá U21 karlalandsliðinu til þessa.

Næsti leikur liðsins verður, eins og áður sagði, í Grindavík næstkomandi þriðjudag þegar að Norður Írar verða mótherjarnir.  Leikurinn hefst kl. 15:00 og er ástæða til að hvetja alla til þess að mæta og hvetja strákana til sigurs.