• mið. 30. sep. 2009
  • Landslið

Ólafur Jóhannesson ráðinn til ársloka 2011

Ólafur Jóhannesson fagnar sigri gegn Makedóníu
Oli_Jo_2008

Knattspyrnusamband Íslands framlengdi í dag samning við Ólaf Jóhannesson sem landsliðsþjálfara A landsliðs karla og gildir samningurinn til ársloka 2011.  Nýr samningur þess efnis var undirritaður í dag í höfuðstöðvum KSÍ.

Ólafur var ráðinn landsliðsþjálfari á haustmánuðum 2007 og var sá samningur í gildi til ársloka á þessu ári.  Gert er ráð fyrir að aðstoðarmenn Ólafs verði þeir sömu, þ.e. Pétur Pétursson, aðstoðarþjálfari og Bjarni Sigurðsson, markvarðaþjálfari.

Ólafur Jóhannesson hefur stjórnað landsliðinu í 21 landsleik til þessa.  Ísland hefur unnið 7 leiki, 4 hafa endað með jafntefli en 10 leikir hafa tapast.  Enn eru tveir landsleikir eftir á þessu ári, báðir vináttulandsleikir.  Ísland tekur á móti Suður Afríku á Laugardalsvelli þann 13. október næstkomandi og leikið verður við Lúxemborg ytra þann 14. nóvember.

Knattspyrnusambandið fagnar þessum nýja samningi við Ólaf og væntir mikils af hans störfum.