Kristinn dæmir í Belgíu og Búlgaríu í október
Kristinn Jakobsson verður á ferð á flugi í október ásamt öðrum íslenskum dómurum en þann 1. október næstkomandi dæmir hann leik Anderlecht og Ajax í Evrópudeild UEFA sem leikinn verður í Brussel. Á vegum UEFA er nú tilraunaverkefni í gangi þar sem sex dómarar starfa við hvern leik. Ásamt hinu hefðbundna dómaratríói er svo fjórði dómari og tveir dómarar sem staðsettir eru við sitthvort markið. Ásamt Kristni verða þeir Sigurður Óli Þorleifsson og Ólafur Ingvar Guðfinnsson aðstoðardómarar. Fjórði dómari verður Jóhannes Valgeirsson og aukaaðstoðardómarar verða þeir Magnús Þórisson og Þorvaldur Árnason.
Þann 14. október næstkomandi dæmir Kristinn svo leik Búlgaríu og Georgíu í undankeppni fyrir HM 2010. Leikið verður í Sofiu og Kristni til aðstoðar í leiknum verða sem fyrr þeir Sigurður Óli Þorleifsson og Ólafur Ingvar Guðfinnsson. Fjórði dómari verður svo Magnús Þórisson.