Ítarlegri úttekt UEFA á leyfisgögnum félaga 2009 lokið
UEFA gerði í síðustu viku ítarlega úttekt á leyfisgögnum íslenskra félaga. Úttekt þessi snýr að mestu leyti að gögnum þeirra félaga sem undirgangast leyfiskerfi KSÍ og léku í UEFA-mótum á árinu.
Hingað til lands kom einn starfsmaður frá UEFA og honum til aðstoðar voru þrír starfsmenn PwC á Íslandi, sem grandskoðuðu gögnin og gerðu tillögur um úrbætur á gögnunum og vinnulagi KSÍ og félaganna sjálfra.
Þessi úttekt kallast UEFA Compliance Audit og er framkvæmd hjá nokkrum knattspyrnusamböndum á ári hverju. Dregið er um það í höfuðstöðvum UEFA hvaða knattspyrnusambönd eru heimsótt hverju sinni.
UEFA og PwC fara nú yfir niðurstöðurnar og gefa síðan skýrslu um stöðu mála og verður sú skýrsla birt KSÍ innan fárra vikna.