Góð byrjun hjá U19 kvenna í Portúgal
Stelpurnar í U19 hófu leik í dag í undankeppni fyrir EM U19 kvenna en riðillinn er að þessu sinni leikinn í Portúgal. Íslensku stelpurnar unnu sigur á heimastúlkum í fyrsta leik en leikið var gegn heimastúlkum. Lokatölur urðu 0 -2 eftir að staðan hafði verið markalaus í leikhléi.
Fyrri hálfleikurinn var markalaus en íslenska liðið var með yfirhöndina og náðu heimastúlkur aldrei að ógna marki Íslands. Stelpurnar fengu nokkur ágætis tækifæri til að koma boltanum í netið en staðan markalaus þegar dómari leiksins frá Möltu flautaði til leikhlés.
Heimastúlkur komu ákveðnar til leiks og var seinni hálfleikurinn mun jafnari. Aldrei skapaðist þó mikil hætta fyrir framan mark íslenska liðsins. Það var svo Þórhildur Stefánsdóttir sem kom íslenska liðinu yfir á 66. mínútu. Það var svo Kristín Erna Sigurlásdóttir sem að innsiglaði sanngjarnan sigur Íslands með marki á 82. mínútu.
Í hinum leik riðilsins mættust Sviss og Rúmenía og þar fóru svissnesku stúlkurnar með öruggan sigur af hólmi, 5 - 0. Ísland og Sviss mætast einmitt á mánudag í annarri umferð riðilsins en tvær efstu þjóðirnar tryggja sér sæti í milliriðlum.