Þetta lá í loftinu!
Íslenska kvennalandsliðið vann í gær sinn stærsta sigur frá upphafi þegar að landslið Eistlands var lagt af velli með tólf mörkum gegn engu. Það má segja að þetta hafi legið í loftinu því að skömmu fyrir leikinn mátti sjá glæsilegan regnboga yfir Laugardalsvelli og í kjölfarið fylgdi leikurinn með mörk í öllum regnbogans litum.
Eftir leikinn var glatt á hjalla hjá leikmönnum og starfsmönnum liðsins. Við það tækifæri fékk Dóra María Lárusdóttir styttu að gjöf frá KSÍ fyrir að hafa leikið 50 landsleiki en þeim áfanga náði hún í úrslitakeppni EM í Finnlandi á dögunum. Við sama tækifæri fékk svo Kristín Ýr Bjarnadóttir nýliðamerki KSÍ en hún lék sinn fyrsta landsleik í gærkvöldi. Það voru þau Gylfi Orrason, varaformaður KSÍ og Guðrún Inga Sívertsen formaður landsliðsnefndar kvenna, sem að sáu um afhendinguna.
Hér að neðan má sjá myndir af þessu sem og fleiru af Laugardalsvelli í gærkvöldi.