• fim. 17. sep. 2009
  • Landslið

Tólf mörk í Laugardalnum

Byrjunarlið Íslands gegn Eistlandi í undankeppni HM 17. september 2009
Ísland-Eistland

Íslenska kvennalandsliðið vann sinn stærsta sigur frá upphafi í kvöld þegar þær lögðu stöllur sínar frá Eistlandi á Laugardalsvelli.  Lokatölur urðu 12 - 0 eftir að staðan í leikhléi var 7 - 0.  Íslenska liðið hefur því fullt hús stiga í undankeppni fyrir HM 2011eftir tvö leiki og markatöluna 17 - 0.

Yfirburðir íslenska liðsins voru miklir í leiknum og eftir að fyrsta markið kom á fjórðu mínútu var aðeins spurning um hversu stór sigurinn yrði.  Þær Margrét Lára Viðarsdóttir og Hólmfríður Magnúsdóttir skoruðu þrjú mörk hvor.  Margrét Lára náði þrennunni í fyrri hálfleiknum en Hólmfríður í þeim síðari.  Fyrirliðinn Katrín Jónsdóttir skoraði tvö mörk í sínum 90. landsleik og þær Dóra María Lárusdóttir, Edda Garðarsdóttir, Sara Björk Gunnarsdóttir og Rakel Hönnudóttir skoruðu eitt mark.

Þetta er stærsti sigur íslenska kvennalandsliðsins frá upphafi en árið 2003 voru Pólverjar lagðir hér á Laugardalsvellinum, 10 - 0.

Það er rúmur mánuður í næstu verkefni því þann 24. október leikur íslenska liðið við Frakka í þessari undankeppni á útivelli og fjórum dögum síðar mætum við svo Norður Írum í Belfast.

Margrét Lára Viðarsdóttir skorar úr vítaspyrnu í leik gegn Eistlandi

Rakel Hönnudóttir fagnar marki sínu gegn Eistlandi, tólfta mark Íslands í 12-0 sigri