• þri. 15. sep. 2009
  • Landslið

Dregið í riðla fyrir EM 2012 þann 7. febrúar 2010

UEFA
uefa_merki

Þann 7. febrúar 2010 verður dregið í riðla fyrir undankeppni Evrópumóts karlalalandsliða 2012, sem fram fer í Póllandi og Úkraínu.  Drátturinn fer fram í miðstöð menningar og vísinda í Varsjá í Póllandi.  Undankeppnin verður leikin á tímabilinu september 2010 til nóvember 2011 og verður þátttökuþjóðunum (51 þjóð) skipt í 6 styrkleikaflokka.  Sextán lið komast í úrslitakeppnina.

Leikið verður í 9 riðlum í undankeppninni - Sex 6 liða riðlum og þremur 5 liða riðlum.  Sigurvegarar riðlanna 9, ásamt liðinu með bestan árangur í öðru sæti fara beint í úrslitakeppnina.  Bestur árangur í öðru sæti er fundinn þannig út að árangur gegn neðsta liði hvers riðils telst þá ekki með.  Hin 8 liðin sem hafna í öðru sæti sinna riðla leika síðan í umspili heima og heiman um fjögur laus sæti.  Gestgjafarnir, Pólland og Úkraína, leika síðan í úrslitakeppninni án þess að fara í gegnum undankeppni.

em2012-banner