Hefur mikla trú á sigri
Ísland mætir Georgíu í æfingaleik á Laugardalsvellinum kl. 19:30 í kvöld og í tilefni þess var haldinn blaðamannafundur á Hilton Reykjavík Nordica í gær.
Töluverðar breytingar hafa orðið á leikmannahópi íslenska liðsins frá því hópurinn var tilkynntur. Rúrik Gíslason og Aron Einar Gunnarsson fóru með U21 árs landsliði Íslands til Norður-Írlands, Eiður Smári Guðjohnsen og Brynjar Björn Gunnarsson fá frí í leiknum í dag og þeir Sölvi Geir Ottesen, Ragnar Sigurðsson og Árni Gautur Arason eiga allir við meiðsli að stríða.
"Forföllin hafa verið aðeins meiri en ég átti von á í upphafi. Ég vissi af þessum mönnum sem fóru með U21 árs liðinu og það er ákvörðun sem ég tók. Mér fannst ég ekki geta haldið þeim. Ég vissi að Eiður og Brynjar myndur ekki vera með í seinni leiknum. Þetta er æfingaleikur og ég hef alltaf sagt það að ég vilji eiga breiðan hóp leikmanna sem vita út á hvað þetta gengur hjá okkur. Þannig að þetta er frábært tækifæri til að leyfa þeim sem hafa spilað minna að spila þennan leik. Við erum með fínt lið og góða fótboltamenn sem koma til með að spila þennan leik á morgun," segir Ólafur Jóhannesson, þjálfari A-landsliðs Íslands.
Ólafur hefur litlar upplýsingar fengið um lið Georgíu en lið frá Austur-Evrópu eru oftar en ekki erfið við að eiga.
"Ég hef trú á því að þetta séu týpískir Austur-Evrópubúar sem spili 4-4-2, eru góðir á boltann og vel skipulagðir. Fínt lið sem við erum að spila á móti og kærkominn æfingaleikur. Ég hef trú á því við komum til með að fá tíma með boltann aftast á vellinum. Við ætlum að reyna að halda boltanum innan liðsins með byrja aftast og finna okkur leiðir í gegnum þá," segir Ólafur og bætir við að hann geri miklar kröfur til leikmanna um að þeir sýni hvað í þeim býr í þessum æfingaleik.
"Það er auðvitað töluverður munur á alvöruleik og æfingaleik en ég set þá kröfu að þeir leikmenn sem spila á morgun sýni mér það að þeir séu tilbúnir til þess að koma inn í liðið þegar við þurfum á þeim að halda. Tækifæri þeirra er á morgun," segir Ólafur.
"Úrslitin hafa ekki verið okkur hliðuholl að undanförnu. Ég viðurkenni það að mig langar ótrúlega mikið til að vinna leik og ég hef mikla trú á því að það gerist á morgun," segir Ólafur.