• þri. 08. sep. 2009
  • Landslið

Glæsilegur sigur á Norður Írum hjá U21 karla

Byrjunarlið U21 karla gegn Tékkum á KR velli 12. ágúst 2009.  Tékkar sigruðu með tveimur mörkum gegn engu.
U21 gegn Tékklandi ágúst 2009

Strákarnir í U21 liðinu unnu frábæran sigur á Norður Írum í dag en leikurinn var liður í undankeppni EM 2011.  Lokatölur urðu 6 - 2 Íslendingum í vil eftir að staðan í hálfleik hafði verið 4 -0.

Leikurinn fór fram á Showgrounds vellinum í Coleraine og höfðu Íslendingar töglin og haldirnar í þessum leik frá upphafi.  Bjarni Þór Viðarsson kom íslenska liðinu yfir með marki úr vítapspyrnu á 15. mínútu og Aron Einar Gunnarsson bætti við marki eftir um hálftíma leik.  Á síðustu þremur mínútum fyrri hálfleiks gerðu strákarnir svo 2 mörk, fyrst Alfreð Finnbogason og síðan, fyrirliðinn, Rúrik Gíslason.  Strákarnir gengu því með fjögurra marka forystu til leikhlés eftir ótrúlegan fyrri hálfleik.

Heldur jafnaðist leikurinn í síðari hálfleik en Jóhann Berg Guðmundsson bætti við fimmta markinu á 57. mínútu.  Norður Írar minnkuðu muninn aðeins mínútu síðar en Rúrik skoraði sitt annað mark og sjötta mark Íslendinga á 64. mínútu.  Heimamenn skoruðu sitt annað mark og síðasta mark leiksins á 76. mínútu og fleiri urðu mörkin ekki í leiknum og glæsilegur sigur hjá strákunum í höfn.

Í sama riðli áttust einnig við Þjóðverjar og Tékkar og var leikið í Þýskalandi.  Gestirnir gerðu sér lítið fyrir og lögðu Þjóðverja, 1 - 2 og hafa Tékkar unnið alla fjóra leiki sína til þessa í riðlinum.  Þjóðverjar og Íslendingar koma svo næstir með þrjú stig eftir 2 leiki.

Leikskýrsla

Riðillinn