Gáfu Tólfunni 150 miða á Ísland-Georgía
Liðsmenn A-landsliðs karla vildu koma á framfæri miklu þakklæti til liðsmanna Tólfunnar fyrir frábæran stuðning á leiknum gegn Norðmönnum á laugardaginn. Í þakklætisskyni ákváðu leikmennirnir að gefa Tólfunni 150 miða á vináttulandsleikinn við Georgíu á miðvikudag.
Styrmir og Benni eru tveir af aðalsprautum Tólfunnar og mættu þeir félagar á æfingu hjá landsliðinu á Laugardalsvelli á mánudag. Þar afhentu þeir Heiðar Helguson og Grétar Rafn Steinsson miðana til þeirra Tólfufélaga.
Öflugur stuðningur áhorfenda getur skipt sköpum í landsleikjum. Þessu gera leikmenn landsliðsins sér grein fyrir og vilja þeir koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem hafa lagt leið sína á völlinn á leikina í nýliðinni undankeppni HM 2010.