Naumt tap hjá U17 kvenna gegn Frökkum
Stelpurnar í U17 kvenna töpuðu í dag gegn Frökkum á Grindavíkurvelli en leikurinn var í riðlakeppni EM U17 kvenna. Lokatölur urðu 2 - 1 Frökkum í vil eftir að Frakkar höfðu leitt í hálfleik, 1 - 0. Sigurmark Frakka kom á lokamínútu leiksins.
Frakkar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum og leiddu þegar að finnski dómarinn flautaði til leikhlés. Leikurinn var mun jafnari í síðari hálfleik og það var svo Guðmunda Brynja Ólafsdóttir sem skoraði laglegt jöfnunarmark Íslendinga. Á síðustu mínútu leiksins fengu svo Frakkar hornspyrnu og eftir mikinn darraðadans í markteignum fór boltinn í netið og Frakkar fögnuðu sigri en vonbrigði okkar stelpna mikil.
Í Keflavík léku Ísrael og Þýskaland og leiddur Þjóðverjar leikinn eftir fyrri hálfleikinn, 0 - 2. Mörkunum rigndi svo inn í blíðviðrinu í síðari hálfleik því þau urðu átta alls og lokatölur því 0 - 10. Þýskaland og Frakkland mætast svo í lokaumferðinni á Akranesi og Ísland og Ísrael leika á Kópavogsvelli. Leikirnir fara fram miðvikudaginn 9. september og hefjast kl. 16:00.
Efsta þjóðin í riðlinum tryggir sér sæti í milliriðlum og það lið sem hafnar í öðru sæti á einnig möguleika þar sem þær sex þjóðir með bestan árangur í öðru sæti, úr riðlunum tíu, komast í milliriðla.