• lau. 05. sep. 2009
  • Landslið

Jafntefli í bráðfjörugum leik gegn Norðmönnum

Íslenskir stuðningsmenn á Laugardalsvellinum
Islenskir_ahorfendur

Íslendingar og Norðmenn gerðu jafntefli í kvöld á Laugardalsvellinum og lauk þar með íslenska liðið keppni í undankeppni HM 2010.  Lokatölur urðu 1 - 1 og komu bæði mörkin í fyrri hálfleik. 

Það er langt síðan að íslenska liðið hefur skapað sér jafnmörg góð marktækifæri eins og það gerði í kvöld.  Markið varð hinsvegar aðeins eitt og skoraði Eiður Smári Guðjohnsen það á 29. mínútu og jafnaði þar með metin en Norðmenn komust yfir á 11. mínútu með marki beint úr aukaspyrnu.  Mark Eiðs Smára kom eftir frábæra sókn sem endaði með því að Eiður skallaði í markið sendingu frá Grétari Rafni.  Íslenska liðið var töluvert sterkari aðilinn langmestan hluta leiksins og virtust koma Norðmönnum í opna skjöldu með vel útfærðum sóknarleik sínum.

Íslensku strákarnir enduðu þessa riðlakeppni með frábærum hætti þó svo að leikmenn og áhorfendur hafi verið vonsviknir með eitt stig í leikslok.  Ísland endaði í neðsta sæti riðilsins þar sem Hollendingar voru í sérflokki en hinar fjórar þjóðirnar í einum hnapp þar á eftir. 

Þó svo að riðlakeppni HM 2010 sé lokið er stutt í næsta verkefni hjá íslenska liðinu.  Georgíumenn mæta á Laugardalsvöllinn, miðvikudaginn 9. september kl. 19:30 og leika þá vináttulandsleik gegn Íslendingum.  Frítt er inn á leikinn fyrir yngri iðkendur aðildarfélaga sem og ellilífeyrisþega og öryrkja.  Hægt er að sjá annars staðar hér á síðunni hvernig má nálgast þessa miða.