Árituðu treyju fyrir Alexöndru Líf
Þann 14. september næstkomandi verða haldnir styrktartónleikar í Háskólabíói fyrir litla hetju, Alexöndru Líf Ólafsdóttur, sem greindist með hvítblæði árið 2005, aðeins 5 ára gömul. Á tónleikunum munu fjölmargar hljómsveitir og tónlistarmenn koma fram, þar á meðal Páll Óskar Hjálmtýsson, Ingó Veðurguð og margir fleiri.
Alexandra, sem er nú 9 ára og sigraðist á hvítblæðinu, glímir nú við mds-krabbamein, sem krefst beinmergsskipta og verður hún því að liggja á sjúkrahúsi allan sólarhringinn. Foreldrar hennar, þau Kolbrún Björnsdóttir og Ólafur Birgisson, eiga þrjú önnur börn – Ronju, Kristjönu og Benjamín, skiptast á að vera hjá Alexöndru á sjúkrahúsinu. Þau Kolbrún og Ólafur misstu einn son, Kristófer Birgi, þegar hann drukknaði aðeins 3 ára gamall.
Liðsmenn A-landsliðs karla tóku sig til og árituðu landsliðstreyju sem þeir gáfu síðan Alexöndru Líf. Leikmenn og þjálfarar landsliðsins vilja hvetja fólk eindregið til að styðja þessa litlu stúlku og foreldra hennar í þessu erfiða verkefni og hvetja fólk til að gefa ef hægt er að sjá af einhverju smáræði.
Reikningur: 0537-14-403800
Kennitala: 160663-2949