• fös. 04. sep. 2009
  • Landslið

Þjóðverjar og Norðmenn í undanúrslit á EM

uefa
uefa

Þjóðverjar og Norðmenn tryggðu sér í dag, föstudag, sæti í undanúrslitum á EM kvennalandsliða, sem fer eins og kunnugt er fram í Finnlandi.  Bæði þessi lið voru með Íslandi í B-riðli og bæði lögðu íslenska liðið með sömu markatölu, 1-0.

Það bjuggust ekki margir við að Ítalir myndu ná að standa í þýska liðinu, en annað kom á daginn.  Þjóðverjar náðu forystu í leiknum, en Ítalir jöfnuðu, áður en þær þýsku náðu forystunni að nýju.  Á lokasekúndum leiksins fengu Ítalir svo gullið tækifæri til að jafna leikinn og senda hann í framlengingu, en markvörður Þjóðverja varði skalla frá markteig með ótrúlegum tilþrifum, líklega markvarsla keppninnar hingað til.

Norðmenn komu nokkuð á óvart gegn Svíum, enda hefur norska liðið þótt eiga erfitt uppdráttar í mótinu.  Þær norsku leiddu með tveimur mörkum í leikhléi og var annað markið sjálfsmark Svía.  Þriðja marki Noregs var bætt við áður en sænska liðið náði að svara sig, en það var of lítið og of seint.

Í undanúrslitum mætast England og Holland annars vegar, en Þýskaland og Noregur hins vegar.  Norska liðið steinlá fyrir því þýska í riðlakeppninni, 4-0, og komu 3 mörk Þjóðverja á síðustu mínútum leiksins.  Undanúrslitaleikirnir fara fram á sunnudag og mánudag og eru báðir í beinni útsendingu á RÚV. 

Lesið allt um mótið á www.emstelpurnar.is og www.uefa.com. .