Landsliðshópurinn fyrir leiki gegn Noregi og Georgíu
Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari, hefur tilkynnt hópinn fyrir 2 landsleiki á næstu dögum. Laugardaginn 5. september leikur Ísland við Noreg á Laugardalsvelli og er leikurinn lokaleikur Íslands í undankeppni fyrir HM 2010. Miðasala á leikinn er í fullum gangi og fer fram, sem fyrr, í gegnum miðasölukerfi hjá midi.is.
Ísland og Noregur hafa oft mæst á knattspyrnuvellinum og hafa A karlalandslið þjóðanna mæst 27 sinnum. Norðmenn hafa sigrað í 16 leikjum, 4 leikir hafa endað með jafntefli og Íslendingar hafa unnið 7 leiki. Síðustu þrír leikir þjóðanna hafa endað með jafntefli en 12 ár eru frá því að Norðmenn sóttu okkur síðast heim hér á Laugardalsvöll og sigruðu þeir þá með einu marki gegn engu.
Miðvikudaginn 9. september koma svo Georgíumenn í heimsókn og leika vináttulandsleik á Laugardalsvellinum. Þessar þjóðir hafa ekki mæst áður hjá A landsliðum karla en Georgíumenn eru sem stendur í 103 sæti styrkleikalista FIFA.
Ólafur hefur valið 22 leikmenn í hópinn og má sjá hann hér að neðan.