• þri. 01. sep. 2009
  • Landslið

Auðvitað eru allir leikir mikilvægir!

Ólafur Jóhannesson fagnar sigri gegn Makedóníu
Oli_Jo_2008

Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari karla, valdi í dag 22 leikmenn til tveggja verkefna sem framundan eru.  Annars vegar er leikur gegn Norðmönnum í undankeppni HM á laugardaginn og hins vegar vináttuleikur gegn Georgíu á miðvikudaginn. Báðir leikirnir verða spilaðir á Laugardalsvelli.  Heimasíðan hitti Ólaf í dag og spjallaði við hann um komandi verkefni.

"Auðvitað eru allir leikir mikilvægir, hvort sem þeir séu æfingaleikir eða leikir í undankeppni. Leikurinn er mjög mikilvægur fyrir Norðmenn sem nánast verða að vinna leikinn. Og eftir því sem mér skilst á norskum fjölmiðlum, þá hefur þjálfari þeirra gefið út að þeir ætli að spila meiri sóknarleik heldur en oft áður. Þeir koma örugglega til með að sækja grimmt til að ná í þessi þrjú stig en auðvitað förum við í þennan leik til að vinna. Við teljum okkur eiga góða möguleika til þess," segir Ólafur.

Hermann Hreiðarsson er í hópnum þrátt fyrir að hafa ekki enn spilað með liði sínu Portsmouth á tímabilinu vegna meiðsla. Ólafur telur þó allar líkur vera á því að Hermann muni spila leikinn gegn Noregi.

"Hermann er heill heilsu og var á varamannabekknum um helgina sem þýðir að hann er tilbúinn til að spila. Hann var ekki sáttur með að vera varamaður um helgina, var nánast brjálaður yfir því. En eins og við vitum, þá er Hermann mikill keppnismaður og ég hef ekki áhyggjur af því þó hann hafi ekki spilað. Auðvitað er það verra en ég veit nákvæmlega hvurslags karakter Hermann er og hann verður örugglega tilbúinn í leikinn gegn Norðmönnum," segir Ólafur.

Veigar Páll Gunnarsson er kominn aftur í leikmannahópinn. Veigar hefur átt erfitt með að vinna sér sæti í liði AS Nancy-Lorraine eftir að hafa leikið frábærlega með Stabæk í norsku úrvalsdeildinni.

"Hans líkamlega form hefur líklega aldrei verið betra. Hann gekk í gegnum eitt erfiðasta undirbúningstímabil sem hann hefur lent í. Hann hefur ekki fengið að spila með aðalliðinu en hann hefur spilað með varaliðinu. Og við vitum alveg hvurslags nafn Veigar er í Noregi. Ef ég þekki Norðmennina rétt, þá eru þeir skíthræddir við hann, bara ef hann er á landinu," segir Ólafur.

Enginn nýliði er í hópnum að þessu sinni en tveir leikmenn hafa eingöngu spilað einn landsleik. Annar þeirra er Rúrik Gíslason, leikmaður OB í Danmörku.

"Ég sá Rúrik spila Evrópuleikinn á móti Genoa í síðustu viku. Hann hefur verið að gera mjög góða hluti í Danmörku og í þessum leik sem ég sá hann spila stóð hann sig virkilega vel. Rúrik er á góðu róli í sínum fótboltaferli. Hann er öskufljótur og flinkur fótboltamaður, einn af þessum ungu sem eru að koma upp og ég fagna því," segir Ólafur en Rúrik mun ekki spila leikinn gegn Georgíu þar sem hann verður með U21 árs landsliðinu í Norður-Írlandi. Sömu sögu er að segja af Aroni Einari Gunnarssyni sem einnig er í A-landsliðshópnum.