Naumt tap gegn heims- og Evrópumeisturunum
Stelpurnar okkar í kvennalandsliðinu töpuðu naumlega gegn heims- og Evrópumeisturum Þjóðverja, í lokaumferð B-riðils í úrslitakeppni EM í Finnlandi. Eina mark leiksins kom snemma í síðari hálfleik þegar boltinn fór í netið af stuttu færi eftir klafs í markteignum. Íslenskir áhorfendur voru fjölmennir að venju og héldu uppi frábærri stemmningu í stúkunni, en alls voru áhorfendur á leiknum 3.101.
Þjóðverjar hófu leikinn af krafti og áttu hörkuskot af löngu færi á 15 mínútu, sem Guðbjörg varði naumlega í þverslána. Þýska liðið sótti meira í fyrri hálfleik, var mikið með boltann, en íslenska vörnin barðist af krafti.
Þjóðverjar gerðu tvær breytingar í hálfleik og annar varamaðurinn, Inka Grings, náði að skora mark þegar um 5 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Boltinn barst í markteig Íslands þar sem nokkrir leikmenn rákust saman í baráttu um knöttinn, sem fór af Grings og í mark. Grings meiddist reyndar í þessu atviki og þurfti að yfirgefa völlinn um 10 mínútum síðar.
Ísland færði sig smám saman upp á skaftið og sóknarþunginn jókst með innkomu tveggja varamanna þegar um 20 mínútur lifðu af leiknum. Stuttu síðar komst Margrét Lára Viðarsdóttir í gegnum þýsku vörnina, en fast skot hennar hitti ekki rammann. Þegar 10 mínútur voru eftir af leiknum náði fyrirliðinn Katrín Jónsdóttir hörkuskalla á merkið eftir hornspyrnu, en varnarmaður Þjóðverja varði á marklínu.
Stelpurnar ljúka því keppni á EM án stiga, en geta svo sannarlega borið höfuðið hátt eftir þrjá hörkuleiki.
Í hinum leik riðilsins gerðu Noregur og Frakkland 1-1 jafntefli og þar með eru bæði liðin komin í 8-liða úrslit.