Markmiðið sem fyrr að komast upp úr riðlinum
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari A-landsliðs kvenna, var vitanlega ósáttur með tap liðsins gegn Frökkum í lokakeppni EM. Hann segir þó í viðtali við heimasíðu KSÍ að tapið breyti litlu um fyrirætlanir og markmiðum liðsins í keppninni.
"Við stefnum auðvitað ennþá á að komast upp úr riðlinum og það er ennþá möguleiki fyrir hendi. Við eigum tvo leiki eftir og horfum bara á einn leik í einu. Næsti leikur er gegn Noregi og við þurfum að vinna hann. Þetta tap setur bara aukið vægi á þann leik og næsti leikur er úrslitaleikur fyrir okkur," segir Sigurður Ragnar og bætir við að helst þyrfti liðið að fá stig gegn Þjóðverjum til að ná því markmiði að komast upp úr riðlinum.
"Auðvitað þurfum við helst að fá stig gegn Þjóðverjum. Annars er maður bara að treysta á góð úrslit í öðrum riðlum. Svo lengi sem við eigum leiki framundan, þá er von. Markmið okkar er sem fyrr að komast upp úr riðlinum," segir Sigurður Ragnar en tvö af þeim liðum sem enda í þriðja sæti síns riðils komast í 8 liða úrslit.
Sigurður Ragnar segir að það hafi margt jákvætt verið í leik Íslands gegn Frökkum og að hann muni reyna að nýta þá jákvæðu hluti fyrir leikinn gegn Norðmönnum sem fram fer fimmtudaginn 27. ágúst kl. 17:00.
"Ef maður tekur bara opinn leik, þá fór þessi leikur 1-1. Það voru þrjár vítaspyrnur dæmdar í þessum leik sem breyttu gangi leiksins töluvert mikið. Ég var í heildina séð nokkuð ánægður með varnarvinnu liðsins, við lögðum mikið á okkur og hlupum mikið í leiknum. En við stefndum á betri úrslit og mér fannst ekki það mikill munur á liðunum að það skildi tvö mörk á milli."
Norðmenn töpuðu sínum fyrsta leik í riðlinum, 0-4 gegn Þjóðverjum. Ísland og Noregur eru því enn án stiga og því má búast við hörkuleik þegar þjóðirnar mætast á vellinum í Lahti. Sigurður Ragnar segir að svo gæti farið að hann breyti byrjunarliðinu að einhverju leiti og einnig áherslum liðsins fyrir leikinn gegn Norðmönnum.
"Ég ætla að miða það svolítið út frá því hvernig Noregur spilaði á móti Þýskalandi og athuga hvort við finnum ekki veikleika á þeirra liði. Ég horfði á síðasta korterið í þeim leik og þá komu fram ákveðnir veikleikar í leik norska liðsins. Vonandi getum við notfært okkur þá í leiknum gegn Norðmönnum á fimmtudaginn," segir Sigurður Ragnar að lokum.