Endurheimt eftir leikinn við Frakkland
Leikmannahópur kvennalandsliðsins var tvískiptur á æfingunni í Hervanta síðdegis í dag, þriðjudag. Í öðrum hópnum voru þeir leikmenn sem voru í byrjunarliði á móti Frökkum og æfingin var í léttari kantinum hjá þeim leikmönnum. Æfingin gekk aðallega út á svokallaða endurheimt, sem gengur í einföldu máli út á að hjálpa líkamanum að jafna sig eftir álag leiksins á mánudagskvöldið. Leikmennirnir voru jafnframt með púlsmæla og líkamlegt ástand skoðað gaumgæfilega.
Í hinum hópnum voru þeir leikmenn sem voru á bekknum, líka þeir sem komu inn á sem varamenn. Góð keyrsla var á æfingunni hjá þeim hópi, skotæfingar og spil, maður á móti manni, og ýmislegt í þeim dúr. Mikið kapp var í leikmönnum og greinilegt að þær sem sátu á bekknum eru staðráðnar í að sýna þjálfarateyminu að þær eiga erindi í byrjunarliðið.
Hópurinn heldur svo allur til Lahti á miðvikudag, þar sem liðið leikur við Norðmenn á fimmtudag.