Glæsilegur leikvangur í Tampere
Leikvangurinn í Tampere skartar sínu fegursta fyrir fyrsta leik íslenska liðsins í úrslitakeppni EM. Allur leikvangurinn er merktur keppninni og ekki fer á milli mála að miklu er kostað til að gera leikvanginn sem glæsilegastan, þó sjálft grasið hafi ekki verið í nægilega góðu ástandi til að liðin fengju að æfa á honum fyrir fyrstu leikina. Það kemur ekki að sök, enda er æfingavöllur íslenska liðsins frábær.
Stelpurnar okkar mæta Frökkum á mánudag og hefst leikurinn kl. 17:00 að íslenskum tíma. Úrslitakeppnin hefst reyndar í dag með tveimur leikjum í A-riðli. Hollendingar mæta Úkraínumönnum kl. 11:45 og gestgjafarnir, Finnar, mæta Dönum kl. 16:30 í opinberum opnunarleik mótsins.