Vel tekið á því á æfingu
Það var vel tekið á því á æfingu hjá stelpunum okkar í Finnlandi í morgun. Æfingin fór fram á Hervanta-vellinum við Lindforsin-götu í Tampere við frábærar aðstæður. Völlurinn er mjög góður, iðagrænn og þéttur, sólin skein hátt á lofti, og golan var hlý. Reyndar breyttist golan í rok á einum tímapunkti því annað varamannaskýlið við völlinn fauk um koll. Þess ber reyndar að geta að svona varamannaskýli myndu ekki staldra lengi við á íslenskum knattspyrnuvöllum.
Gott tempó var á æfingunni og leikmenn tókust vel á. Engin meiðsli eru í hópnum, en Sif Atladóttir gat þó ekki takið þátt í æfingunni, þar sem hún skartar glæsilegu glóðarauga eftir æfingu gærdagsins og sá svolítið illa út úr auganu og ákveðið var að taka enga áhættu með það. Leikmenn eru í stöðugri meðferð og eftirliti hjá sjúkrateyminu eins og gengur og gerist, og fyllstu varúðar er gætt, m.a. gagnvart smithættu, þannig að leikmenn drekka vatn og orkudrykki úr merktum brúsum.
Guðrún Inga og Hanna Dóra blanda orkudrykkina.
Stelpurnar gera sig klárar fyrir æfinguna.
Sjúkrateymið: Svala sjúkraþjálfari og Reynir læknir.