• lau. 22. ágú. 2009
  • Landslið

Dagbók Fríðu og Guggu:  Mættar á svæðið

fridaoggugga
fridaoggugga

Ferðin hófst að venju eldsnemma uppá KSÍ og var brunað uppá Keflavíkurflugvöll. Klara greinilega komin með góð sambönd þar en við fengum VIP treatment og fengum að rúlla hratt í gegnum check‘in og vopnaleit.

Síðan tók við drátturinn í EM-leik Fríhafnarinnar þar sem þær Ásta Árna, Sif Atla og Sara Björk fengu að draga út verðlaunahafa sem fá að koma til Finnlands og sjá eitt stykki leik! Síðan var loksins farið uppí vél og flogið til Helsinki og þaðan fórum við í rútu til Tampere.

Ekki var mikið verið að hvílast eftir ferðalagið heldur nánast beint farið á æfingu eftir smá hressingu. Leikmenn áttu að skokka ferðalagið úr sér en það endaði ekki betur en að Sif fékk glóðarauga í trylltu spili, enda kunnum við ekkert að „taka létt á því“. Þegar nokkrar sekúndur voru eftir að æfingunni fékk Gugga hnykk á öxlina og þá var nú nóg komið og æfingin á enda.

Magga Áka og Hanna Dóra ganga með spritt á sér og dreifa um á leikmenn, þar sem hin síumtalaða Svínaflensa er útum allt. Þar sem við erum með norsku stelpunum á hóteli auglýsum við eftir sýktum einstakling af Svínó að skella sér á níundu hæð.

Í dag, laugardag, var vaknað snemma og farið á æfingu á stórgóðum æfingavelli okkar en hann er í um 15 mínútna akstursfjarlægð. Farið var vel í uppspil og hornspyrnur en Frakkarnir geta ekki látið sér dreyma um að skora aftur hjá okkur eftir hornspyrnu!

Svala hefur fengið vænan liðstyrk í sjúkróherbergið en fyrrverandi landsliðskona og stórstjarnan Erla Hendriksdóttir er mætt og ætlar að nudda okkur í ferðinni. Minnkar þá álagið aðeins á Svölu okkar sem vinnur nánast dag og nótt til að hafa okkur allar leikfærar.

Eftir æfinguna var hvíld og meðferð og síðan fengu leikmenn að spóka sig um í bænum. Pokar úr H&M og Ginatricot byrjuðu fljótlega að streyma inná hótelið eftir  það.  Í kvöld var íslenska pressan mætt að taka hópmyndir og viðtöl og nýju búningarnir vígðir.  Síðan var farið á fund og Frakkarnir leikgreindir í tætlur. Eins og Siggi Raggi sagði sjálfur „Við Gary erum búnir að vera sveittir saman inná herbergi“.  Fólk má bara túlka það eins og það vill.

Nú er að koma ró og næði hér á 8.hæðinni á SOKOS Hotel þar sem við erum búnar að byggja lítið Íslendingaþorp. Þangað til næst ...

Guðbjörg og Hólmfríður