Drógu út vinningshafa í EM-leik Fríhafnarinnar
Eins og kunnugt er hélt kvennalandslið Íslands til Finnlands á föstudagsmorgunn, þar sem liðið leikur í úrslitakeppni EM. Áður en stelpurnar héldu í flugvélina drógu þær út vinningshafa í EM-leik Fríhafnarinnar, sem m.a. var auglýstur á emstelpurnar.is.
Þátttaka í leiknum var framar björtustu vonum, að sögn Hlyns Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Fríhafnarinnar, enda vinningarnir ekki af verri endanum, áritaðar treyjur og miðar á leiki íslenska liðsins.
Fríhöfnin gerði einig vel við stelpurnar og gaf þeim gjafabréf með inneign í Fríhöfninni. Viðburðurinn vakti mikla athygli og augljóst að þjóðin er að fylgjast vel með stelpunum okkar.
Þegar til Finnlands var komið varð hluti fararstjórnar eftir í Helsinki og sótti skipulagsfund með fulltrúum hinna þjóðanna og UEFA. Liðið og liðsstjórn hélt hins vegar áleiðis til Tampere, kom sér fyrir á hótelinu, og tók fyrstu æfinguna. Æfingin gekk vel og góður andi er í íslenska liðinu, hópurinn er vel stemmdur og allir leikmenn heilir, nema kannski Sif Atladóttir, sem fékk bolta í hausinn á æfingunni og skartar þessu líka fína glóðarauga.