• fim. 20. ágú. 2009
  • Landslið

Pistill frá Eddu Garðarsdóttur

Edda Garðarsdóttir
Edda Gardarsdottir

Biðin hefur verið löng og ströng síðan að áhangendur íslenska kvennalandsliðsins sungu hástöfum „ÍSLAND Á EM !!!“ þegar við skautuðum yfir Írana í vetur.  Nú er leikurinn við Serbíu í HM búinn og við tekur EM 2009 í öllum sínum dýrðarinnar ljóma. Á bak við þennan áfanga í íslenskri knattspyrnusögu liggja óteljandi boltaspörk, bros, tár og skuldbinding við sportið okkar sem er engu lík. Nú höfum við tækifæri á því að gera enn betur og þetta er allt að skella á.

Síðast í gærkvöldi voru línurnar lagðar endanlega fyrir brottförina til Finnlands sem er núna á föstudaginn 21. ágúst, margt sem þarf að hafa í huga sem maður hefur ekki hugsað út í. Samskipti við fjölmiðla, samskipti við alla aðra utan liðsins, ferðareglur, fatnaður, dagskrá á meðan mótið stendur yfir... meira að segja sérstakir ferðasokkar! Það er hugsað fyrir öllu hjá Knattspyrnusambandi Íslands.

Samt sem áður er eitt sem að stendur upp úr í umræðunni þessa dagana en það eru ráð til að verjast SVÍNA-flensunni: Hreinlæti, forðast aðra flensubera, ekki fara til Grindavíkur, snýta sér, spritta hendur, taka vítamínin sín og fara snemma í háttinn... Held samt sem áður að þessi heilræði eigi ekki eftir að halda hrekkjusvínunum í skefjum í Finnlandi, en það er eitthvað sem segir mér að það verði alvarlegur hrekkjusvínafaraldur í Tampere.

Við vonumst til þess að vera landi og þjóð til sóma í einu og öllu, bæði innan vallar sem utan. Við erum allar að stefna að sama markmiði. Við erum allar einbeittar að því að valda miklum usla í þessari úrslitakeppni.  Við ætlum að spila harðan, fastan og flottan fótbolta með hreinræktaðan íslenskan baráttuvilja að vopni. Við ætlum að skemmta okkur og njóta þess að spila saman hverja einustu mínútu. Við hlökkum til að takast á við hvaða andstæðing sem er, á hvaða velli sem er, hvenær sem er.

Allir að fylgjast með okkur á EM! Þau sem komast ekki út geta fylgst með á RÚV, aðalatriðið er að hjartað sé á réttum stað og allir gargi sig hása, ÁFRAM ÍSLAND!