Ekki æft á keppnisvöllum í Turku og Tampere
UEFA hefur tilkynnt að keppnisvellirnir í Turku og Tampere í Finnlandi séu ekki í ákjósanlegu standi. Af þeim sökum geta þau lið sem eiga leiki á þessum völlum á fyrsta leikdegi sínum ekki æft þar daginn fyrir leiki sína.
Stelpurnar okkar eiga fyrsta leik sinn í keppninni á mánudag gegn Frökkum. Sama dag, og á sama velli, Tampere Stadium, leik hin liðin í riðlinum, Þjóðverjar og Norðmenn. Engin þessara þjóða getur því æft á keppnisvellinum fyrir fyrsta leik, en reyndar fá leikmenn að skoða völlinn og ganga út á hann daginn fyrir leik, þó aðeins á flatbotna skóm.
Það sama er uppi á teningnum í Turku, en leikvangurinn þar er ekki í nógu góðu standi til að þola æfingar daginn fyrir fyrstu leikina. Þar mætast Úkraína og Holland annars vegar og Svíþjóð og Rússland hins vegar. Þessi lið fá því ekki heldur æfingu á keppnisvellinum fyrir sína fyrstu leiki í riðlinum.