Vika í fyrsta leik Íslands á EM í Finnlandi
Í dag er rétt vika í að íslensku stelpurnar þreyti frumraun sína í úrslitakeppni EM í Finnlandi þegar liðið mætir Frökkum, 24. ágúst í Tampere. Mótið hefst þó degi áður þegar leikið verður í A riðli. Fyrsti leikurinn verður á milli Úkraínu og Hollands en síðar á sunnudaginn eigast svo við gestgjafarnir finnsku og Danir.
Ríkissjónvarpið verður með viðamikla umjföllun um úrslitakeppnina og verða flestir leikir keppninnar sýndir og að sjálfsögðu allir leikir íslenska liðsins. Sérstök EM stofa verður í gangi á meðan keppninni stendur og er það Snorri Már Skúlason sem að hefur umsjón með henni og fær til sín góða gesti. Honum til aðstoðar verða þau Willum Þór Þórsson og Kristrún Lilja Daðadóttir en þau munu fara ítarlega ofan í leikina.
Það er því ekki seinna vænna en að fara að finna íslensku fánana, happabúninginn og allt annað sem þið teljið að gagnist íslensku stelpunum í Finnlandi.