Fjögur mörk frá Margréti Láru
Það er óhætt að segja að Margrét Lára Viðarsdóttir hafi tekið markaskóna með sér á Laugardalsvöllinn í dag. Hún skoraði fjögur mörk gegn Serbíu í 5-0 sigri íslenska liðsins, í fyrsta leik liðsins í undankeppni HM 2011. Fyrirliðinn Katrín Jónsdóttir lét einnig að sér kveða í leiknum og skoraði eitt mark. Þetta var síðasti leikur liðsins fyrir úrslitakeppni EM í Finnlandi og klárlega gott veganesti fyrir ferðalagið.
Síðast þegar Serbía kom í heimsókn í Laugardalinn unnu stelpurnar okkar einnig 5-0 sigur og þá var jafnframt set áhorfendamet á kvennalandsleik, tæplega 6 þúsund manns mættu á völlinn. Það var vel mætt á völlinn í dag þó svo áhorfendametið hafi ekki verið slegið, en alls komu 4.194 á völlinn til að kveðja EM-stelpurnar.
Fyrri hálfleikur var í daufari kantinum, enda gerði serbneska liðið í því að hægja á leiknum eins og þær mögulega gátu,. Þetta gekk vel framan af og okkar stúlkur virtust ekki ætla að ná að setja mark, en Margrét Lára braut ísinn með marki beint úr aukaspyrnu eftir um hálftíma leik. Fleiri mörk voru ekki skoruð í fyrri hálfleik.
Í síðari hálfleik lék íslenska liðið á alls oddi og náði að keyra hraðann upp. Serbneska vörnin átti fá svör við frábærum leik íslenska liðsins og mörkin í síðari hálfleik urðu fjögur talsins. Fyrst náði Margrét Lára þrennunni með mörkum á 50. mínútu og svo aftur á þeirri 70. Katrín Jónsdóttir fyrirliði skoraði gott skallamark á 80. mínútu og Margrét Lára fullkomnaði fernuna fimm mínútum síðar. Mörkin hefðu hæglega getað verið fleiri.
Frábær byrjun íslenska liðsins á undankeppninni enn betri upphitun fyrir hið stóra verkefni sem bíður stelpnanna okkar. Allt um EM á www.emstelpurnar.is.
Eftir leikinn fögnuðu áhorfendur hetjunum sínum ákaft og leikmenn og þjálfarar gáfu sér góðan tíma til að sinna æstum aðdáendum. Það er klárt mál að þjóðin stendur þétt við bakið á stelpunum. Til hamingju Ísland!