• fös. 14. ágú. 2009
  • Landslið

Serbarnir í hremmingum með keppnisbúningana

Merki HM kvenna í Þýskalandi 2011
HM_kvenna_2011

Serbneska kvennalandsliðið lensti í hremmingum á ferðalagi sínu til Íslands fyrir leikinn gegn Íslendingum í undankeppni HM 2011 á Laugardalsvelli á Laugardag.  Stór hluti af farangri liðsins skilaði sér ekki til Íslands og er talið að töskurnar séu á flugvellinum í París, þar sem liði millilenti á leið sinni til Keflavíkur. 

Á meðal þess sem skilaði sér ekki til landsins voru töskur með keppnisbúningasetti liðsins og farangur nokkurra leikmanna, sem höfðu ekki gerst nógu forsjálir til að setja a.m.k. takkaskóna í handfarangur, sem er t.d. regla þegar öll landslið Íslands ferðast í leiki, þó það hafi nú komið fyrir að einstaka leikmenn klikki á því.

Nú er því unnið hörðum höndum að því að fá búningana til landsins ásamt því að haft hefur verið samband við nokkur félagslið sem eiga hvíta aðal- eða varabúninga, en varabúningur Serbíu er alhvítur og í þeim litum átti Serbía að leika á laugardag.  Annar möguleikinn er að serbneska liðið leiki í varabúningi íslenska landsliðsins, þ.e. ef búningarnir skila sér ekki til landsins.