• fim. 13. ágú. 2009
  • Landslið

Þriðja viðureign Íslands og Serbíu á þremur árum

Merki HM kvenna í Þýskalandi 2011
HM_kvenna_2011

Kvennalandslið Íslands og Serbíu mætast í undankeppni HM 2011 á Laugardalsvelli á laugardag kl. 14:00.  Þetta er fyrsti leikur beggja liða í undankeppninni, en þriðja viðureignin á þremur árum. 

Ísland og Serbía voru saman í riðli í undankeppni EM 2009, þar sem Ísland hafnaði í 2. sæti riðilsins með 18 stig og komst í lokakeppni EM eftir umspil við Írland, eins og kunnugt er.  Stelpurnar okkar unnu báða leikina gegn Serbum í riðlinum nokkuð sannfærandi, 5-0 á Laugardalsvellinum í júní 2007 og 4-0 ytra í maí 2008 og eru þetta einu viðureignir þjóðanna hingað til.  Serbía hafnaði í 4. sæti riðilsins með 6 stig, á undan Grikkjum sem vermdu botnsætið með 3 stig.

Miðasala á leikinn er nú í fullum gangi á midi.is.  Miðaverð fyrir 17 ára og eldri er kr. 1.000, en frítt er inn fyrir 16 ára og yngri og frjálst sætaval.  Fólk er hvatt til að fjölmenna á völlinn og kveðja stelpurnar, því þetta er síðasti leikur liðsins áður en haldið er til Finnlands til að taka þátt í úrslitakeppni EM.  Skoðið allt um úrsltiakeppnina á emstelpurnar.is.

Stelpurnar okkar á góðri stund