Frakkar lágu á heimavelli
Fyrstu mótherjar Íslendinga í úrslitakeppni EM kvenna í Finnlandi, Frakkar, léku um helgina vináttulandsleik gegn Japan. Leikið var í Frakklandi og lágu heimastúlkur fyrir japanska liðinu en lokatölur urðu 0-4. Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari, var á leiknum og fylgdist þar með væntanlegum mótherjum.
Japanska liðið er eitt það alsterkasta í heiminum og áður höfðu þær gert markalaust jafntefli gegn Heims- og Evrópumeisturum Þjóðverja. Landsliðsþjálfari Frakka var þó hvergi banginn eftir þessi úrslit. Hann sagði að sitt lið hefði verið á erfiðum æfingum undanfarið og það hafi sýnt sig í þessum leik. Allt kapp verði lagt á að liðið verði í toppstandi þegar það mæti íslenska liðinu í Tampere, mánudaginn 24. ágúst.