Sigur á Finnum hjá U17 karla
Strákarnir í U17 karla unnu góðan sigur á Finnum í lokaumferð riðakeppni opna Norðurlandamótsins en leikið er í Þrándheimi. Strákarnir skoruðu fjögur mörk gegn einu Finna og komu öll mörkin í síðari hálfleik.
Strákarnir hafa spilað mjög vel á mótinu til þessa en í fyrri hálfleik náðu þeir sér ekki á strik og staðan markalaus þegar flautað var til leikhlés. Allt annað var upp á teningnum í síðari hálfleiknum og Kristján Gauti Emilsson kom íslenska liðinu yfir á 52. mínútu og Emil Pálsson bætti við öðru marki á 54. mínútu. Aftur liðu aðeins tvær mínútur og þá skoraði Kristján Gauti aftur. Finnar minnkuðu muninn á 76. mínútu en Arnar Bragi Bergsson skoraði fjórða mark Íslendinga einni mínútu fyrir leikslok og gulltryggði góðan sigur.
Íslenska liðið hafnaði því í öðru sæti riðilsins á eftir Skotum sem gerðu markalaust jafntefli við Svía í dag. Íslendingar leika því um þriðja sætið á mótinu á sunnudaginn.