Kvendómaratríó að störfum í Þorlákshöfn
Síðastliðinn laugardag var brotið blað í íslenskri knattspyrnudómarasögu þegar að tríó skipað konum dæmdi vináttulandsleik Íslands og Færeyja hjá U17 kvenna í Þorlákshöfn. Lögð hefur verið áhersla á, undanfarin ár, að fjölga konum í dómarastéttinni og er því þessi viðburður einkar ánægjulegur.
Það var Guðrún Fema Ólafsdóttir sem dæmdi leikinn en hún dæmdi einmitt á Norðurlandamóti U17 kvenna sem fram fór í Svíþjóð á dögunum og var þar með fyrsti íslenski kvendómarinn til að dæma opinberan leik á erlendri grundu. Henni til aðstoðar voru þær Marína Ósk Þórólfsdóttir og Birna H. Bergstað Þórmundsdóttir. Marína hefur starfað mikið sem aðstoðardómari í Pepsi-deild kvenna og Birna er ungur og upprennandi dómari sem kemur frá Blönduósi.