• þri. 21. júl. 2009
  • Landslið

Aftur sigrar hjá U17 og U19 kvenna

Við erum öll í íslenska landsliðinu!
ahorfendur-11

Í gær fóru fram tveir vináttulandsleikir við Færeyjar og var leikið í aldursflokkum U17 og U19 kvenna.  Sigrar unnust á báðum vígstöðvum, U17 vann með sex mörkum gegn einu og U19 vann með þremur mörkum gegn einu.

Leikur Íslands og Færeyja í U17 kvenna fór fram á Hvolsvelli við fínar aðstæður og vel var mætt á völlinn.  Meðal annars kom rúta frá Álftanesi en leikmaður frá Álftanesi var þarna í fyrsta skiptið í íslensku landsliði.  Íslensku stelpurnar lögðu grunninn af sigrinum í fyrri hálfleik með fjórum mörkum.  Þær bættu svo tveimur mörkum við í síðari hálfleiknum en færeysku stelpurnar áttu síðasta orðið í leiknum og fögnuðu því marki vel.  Aldís Lúðvíksdóttir var svo sannarlega á skotskónum í leiknum og skoraði fjögur mörk.

Í Þorlákshöfn léku U19 kvennalandslið Íslands og Færeyja og var sömu sögu að segja þaðan, aðstæður frábærar í góðu veðri.  Færeyska liðið komst yfir í leiknum en íslenska liðið jafnaði og gengu liðin til búningsherbergja  í stöðunni, 1 - 1.  Íslenska liðið reyndist svo sterkara í síðari hálfleiknum og bætti við tveimur mörkum.

Færeyski hópurinn heldur heim á leið í dag en hann hefur dvalið hér síðan á föstudag.  Stefnt er á áframhaldandi samstarfi á milli knattspyrnusambanda Íslands og Færeyja varðandi yngri kvennalandslið þjóðanna.