Tap hjá U19 kvenna gegn Englandi
Stelpurnar í U19 kvenna töpuðu í dag fyrir Englendingum í úrslitakeppni EM sem fram fer í Hvíta Rússlandi. Lokatölur urðu 4-0 Englendingum í vil eftir að staðan í leikhléi hafði verið 2-0. Stelpurnar hafa því lokið leik í keppninni og halda heim á leið á morgun.
Enska liðið skoraði 2 mörk á fyrstu 12 mínútum leiksins og eftir það var við ramman reip að draga hjá íslenska liðinu. Stelpurnar spiluðu þó mun betur í síðari hálfleik en 2 ensk mörk á tveimur mínútum gerðu endanlega út um leikinn.
Gríðarleg rigning var á meðan leiknum stóð og voru vallaraðstæður því erfiðar. Skömmu áður en að leik lauk stytti hinsvegar upp, sólin fór að skína og hitinn fór fljótt yfir 30 gráðurnar.
Enska liðið sigraði því í riðlinum og er því komið í undanúrslit ásamt Svíum, sem unnu Noreg í dag með tveimur mörkum gegn einu.
Í hinum riðlinum voru þrjár þjóðir jöfn með sex stig, Frakkland, Sviss og Þýskalands. Markatala úr innbyrðis viðureignum þjóðanna skar svo út um það að Frakkland og Sviss komust áfram en Þjóðverjar sátu eftir, þrátt fyrir 9-0 stórsigur á Hvít Rússum í dag.
Íslenska liðið heldur heim reynslunni ríkari, stelpurnar hafa staðið sig frábærlega í þessari keppni og verið landi og þjóð til mikils sóma. Þessi reynsla mun vafalítið nýtast þessum framtíðarlandsliðskonum okkar vel í framtíðinni.
Hér má sjá textalýsingu er birtist á heimasíðunni á meðan leik stóð.
Ísland - England - Textalýsing
Það er vel heitt í Hvíta Rússlandi í dag, fyrir hádegi var hitinn kominn í 32 gráður og sólin var ekki farin að skína. Íslenska liðið hefur upphitunina seint fyrir leikinn en enska liðið er þegar farið að hita upp, allir leikmenn liðsins með derhúfur og undir vökulum augum Mo Marley, hins kæna þjálfara enska liðsins.
Lyfjaeftirlit UEFA er mætt á svæðið og verða leikmenn úr liðunum valdið í lyfjapróf eftir leikinn. Það gæti orðið erfitt fyrir leikmenn að koma einhverju í glasið eftir þennan hitaleik í dag!
Leikurinn er hafinn en þegar íslenski þjóðsöngurinn var leikinn byrjaði að rigna með þvílíkum látum og í kjölfarið fylgdu þrumur og eldingar. Stúkan öðru megin á vellinum er yfirbyggð og upphófst æðisgengið kapphlaup þeirra áhorfenda er sátu hinumegin í skjól. Hitastigið hefur hrapað úr 32 gráðum niður í 20 stig. Völlurinn tekur ekki vel við rigningunni og eru farnir að myndast pollar á vellinum. Skjótt skipast veður í lofti!
Englendingar eru komnir yfir með marki á 11. mínútu. Markið var skallamark sem kom eftir aukaspyrnu.
Aðeins mínútu síðar komast Englendingar í tveggja marka forystu. Þeir sækja upp vinstri kantinn og eftir fyrirgjöf kemur skot að marki sem Birna ver en nær ekki að halda knettinum og sóknarmaður Englands er fyrstur að átta sig og rennir boltanum í netið.
Ísland - England 0-2
Eftir slæma byrjun er komið meira jafnvægi í leikinn, stelpurnar eru farnar að sækja meira og á 17. mínútu átti Fanndís gott skot sem markvörður Englendinga varð vel í horn.
Rigningin heldur áfram og er boltinn hættur að rúlla á vellinum vegna polla. Þrumur og eldingar fylgja í kjölfarið en þær virðast vera í fjarska.
Það er kominn hálfleikur og leikurinn hefur verið rólegur seinni hluta fyrri hálfleiks. Vallaraðstæður eru erfiðar og vonandi að stelpurnar nái að þurrka sér í hálfleik og koma grimmar í síðari hálfleikinn.
Það eru liðnar um 20 mínútur af síðari hálfleiknum og íslenska liðið mætir mun ákveðnara til leiks. Liðið er meira með boltann en nær ekki að skapa sér opin færi. Fyrsta áminningin lítur dagsins ljós í leiknum þegar að Thelma Björk Einarsdóttir fær gula spjaldið á 53. mínútu.
Englendingar bættu við tveimur mörkum á 77. og 79. mínútu. Það fyrra kom eftir glæsiega sókn þeirra en það síðara eftir að rangstöðugildra íslenska liðsins brást illilega. Staðan orðin 4-0 og enska liðið komið í undanúrslit.
Leiknum er lokið með sigri Englendinga 4-0.