• sun. 19. júl. 2009
  • Landslið

Ísland - Danmörk hefst kl. 13:30 - Textalýsing

Frá æfingu kvennalandsliðsins í Colchester fyrir vináttulandsleikinn gegn Englandi
A kvenna England 2009 1

Í dag mætast Ísland og Danmörk í vináttulandsleik og verður leikið í Englandi.  Leikurinn hefst kl. 13:30 en ekki kl. 13:00 eins og áætlað hafði verið í fyrstu en íslenska liðið tafðist í mikilli umferð á leiðinni á leikstað.  Fylgst verður með leiknum hér á síðunni með textalýsingu.

Sigurður Ragnar Eyjólfsson hefur tilkynnt byrjunarlið sitt fyrir leikinn.

Byrjunarliðið (4-5-1):

Markvörður: Guðbjörg Gunnarsdóttir

Hægri bakvörður: Erna B. Sigurðardóttir

Vinstri bakvörður: Ólína G. Viðarsdóttir

Miðverðir: Katrín Jónsdóttir, fyrirliði og Guðrún Sóley Gunnarsdóttir

Tengiliðir: Edda Garðarsdóttir, Dóra Stefánsdóttir og Sara Björk Gunnarsdóttir

Hægri kantur: Dóra María Lárusdóttir

Vinstri kantur: Hólmfríður Magnúsdóttir

Framherji: Margrét Lára Viðarsdóttir

Ísland - Danmörk - Textalýsing

Það var greinilegt að leikmenn voru orðnir órþreyjufullir að byrja leikinn.  Eftir fjórar mínútur er staðan orðin 1 - 1!!  Danir komust yfir strax á 3. mínútu en Hólmfríður Magnúsdóttir jafnaði leikinn mínútu síðar með skoti úr teignum.

Ísland - Danmörk 1-2

Á 12. mínútu komast Danir yfir eftir góða sókn þeirra upp allan völlinn.

Leikurinn er jafn en íslenska liðið þó ívíð hættulegra.  Edda Garðarsdóttir átti hörkuskot úr aukaspyrnu er hafnaði í stönginni á 20. mínútu og þremur mínútum síðar átti Margrét Lára skot sem fór naumlega framhjá.

Á 36. mínútu þurfti Ólína G. Viðarsdóttir að yfirgefa völlinn vegna meiðsla og í hennar stað kom Ásta Árnadóttir.

Lítið var af færum í síðari hluta hálfleiksins og íslenska liðið því undir þegar gengið var til búningsherbergja.

Sama lið hóf síðari hálfleikinn og byrjaði leikinn en á 53. mínútu kom Katrín Ómarsdóttir inná í stað Dóru Stefánsdóttur. 

Á 57. mínútu átti Hólmfríður Magnúsdóttir svo hörkuskot sem markvörður Dana varði í þverslánna.  Hólmfríður hefur ógnað marki Dana nokkrum sinnum í leiknum og er til alls líkleg að bæta við öðru marki sínu í leiknum.

Íslenska liðið er töluvert líklegra þessa stundina en hefur ekki náð að finna leiðina í netmöskvana hingað til. 

Leiknum er lokið með sigri Dana með tveimur mörkum gegn einu.  Íslenska liðið sótti gríðarlega mikið á lokakaflanum en inn vildi boltinn ekki.