Svíar reyndust sterkari á lokakaflanum
Stelpurnar í U19 kvenna biðu lægri hlut gegn stöllum sínum frá Svíþjóð í úrslitakeppni EM í Minsk í dag. Lokatölur urðu 1 - 2 Svíum í vil eftir að íslensku stelpurnar höfðu leitt leikinn í leikhléi.
Í hinum leik riðilsins gerðu Noregur og England markalaust jafntefli og eiga því allar þjóðirnar möguleika á því að komast í undanúrslitin. Til þess verða þó Íslendingar að sigra Englendinga í lokaumferðinni á sunnudaginn en enska liðið er í efsta sætinu með fjögur stig.
Hér að neðan má sjá textalýsingu frá leiknum.
Ísland - Svíþjóð - Textalýsing
Portúgalski dómarinn hefur flautað leikinn á og eru vallaraðstæður alveg frábærar, völlurinn einn sá flottasti sem forsvarsmenn íslenska hópsins hafa séð. Hitinn er hinsvegar erfiður ljár í þúfu fyrir leikmenn enda rúmlega 30 stiga hiti.
Leikurinn byrjar fjörlega, Berglind Björg kemst í færi á 6. mínútu en markvörður sænska liðsins varði. Svíar fóru strax í sókn og sóknarmaður þeirra komst í gegn en Birna varði vel úr þröngu færi. Á 14. mínútu fengu svo Íslendingar aukaspyrnu sem að Fanndís fyrirliði tók. Hún átti þrumuskot sem small í stönginni, boltinn barst til Berglindar Bjargar sem var aðeins of lengi að athafna sig í teignum og Svíar komust fyrir. Fjörug byrjun en staðan markalaus eftir 15 mínútur.
Svíar eru meira með boltann en íslensku stelpurnar eru hættulegri í sínum sóknaraðgerðum. Á 23. mínútu átti Fanndís góðan sprett upp kantinn, gaf fyrir þar sem Berglind Björg fékk boltann. Hún lék á einn varnarmann en markvörður Svía varði vel skot hennar. Upp úr því fengu Íslendingar tvær hornspyrnur sem ekkert varð úr.
Heldur hefur dregið af leikmönnum enda mikill hiti á vellinum. Svíar áttu gott langskot á 28. mínútu en Birna varði glæsilega út við stöng. Sex mínútum síðar fengu Svíar sitt besta færi hingað til en sóknarmaður þeirra skaut framhjá úr dauðafæri. Staðan enn markalaus þegar 40 mínútur eru liðnar af leiknum.
MARK Arna Sif Ásgrímsdóttir
Íslendingar komust yfir í uppbótartíma í fyrri hálfleik. Stelpurnar unnu aukaspyrnu upp við hornfána sem að Fanndís tók. Hún sendi fastan bolta yfir á fjærstöng þar sem Arna Sif Ásgrímsdóttir hamraði boltann með höfðinu í netið. Svíar tóku miðjuna og um leið var flautað til hálfleiks. Mikill hiti gerir leikmönnum beggja liða erfitt fyrir og hvíldin í hálfleiknum því kærkomin.
Staðan í hálfleik Ísland - Svíþjóð 1 - 0
Svíar byrja seinni hálfleikinn af krafti og sækja stíft án þess þó að skapa sér opin færi. Íslensku stelpurnar eru þolinmóðar og bíða eftir færum á skyndisóknum. Svíar fengu 4 hornspyrnu á fyrstu 15 mínútunum en ekkert kom upp úr þeim. Á 63. mínútu kom fyrsta skipting íslenska liðsins þegar að Arna Ómarsdóttir kom inn fyrir Mist Edvardsdóttur.
Svíar sækja mikið í seinni hálfleik án þess þó að koma sér í dauðafæri. Íslenska liðið berst af krafti og verst vel.
1 - 1
Svíar jafna leikinn á 76. mínútu eftir að hafa sótt linnulítið í síðari hálfleiknum. Sóknarmaður þeirra komst ein innfyrir eftir stungusendingu og renndi boltanum í netið.
1 - 2
Svíar komast yfir á 87. mínútu með góðu skoti sem small í stönginni og þaðan í netið. Ekki mikill tími til stefnu hjá stelpunum.
Leiknum lokið með grátlegu tapi íslenska liðsins. Svíar sóttu gríðarlega í seinni hálfleik og skoruðu 2 mörk á síðustu 15 mínútunum.