• fim. 16. júl. 2009
  • Landslið

England - Ísland - Textalýsing

Kvenna_fagnar
Kvenna_fagnar

Íslenska kvennalandsliðið mætir því enska í vináttulandsleik í kvöld og fer leikurinn fram í Colchester í Englandi.  Leikurinn hefst kl. 18:45 að íslenskum tíma og verður hægt að fylgjast með textalýsingu af leiknum hér á síðunni.

Byrjunarliðið (4-5-1):

Markvörður: Þóra B. Helgadóttir

Hægri bakvörður: Erna B. Sigurðardóttir

Vinstri bakvörður: Ólína G. Viðarsdóttir

Miðverðir: Katrín Jónsdóttir, fyrirliði og Guðrún Sóley Gunnarsdóttir

Tengiliðir: Edda Garðarsdóttir, Dóra Stefánsdóttir og Sara Björk Gunnarsdóttir

Hægri kantur: Dóra María Lárusdóttir

Vinstri kantur: Hólmfríður Magnúsdóttir

Framherji: Margrét Lára Viðarsdóttir

England - Ísland - Textalýsing

Leikurinn er hafinn við kjöraðstæður, um 5000 seldust á leikinn og er fólk enn að streyma á leikstað.  Enska liðið er ekki alveg með sitt sterkasta lið.  Þjálfarinn, Hope Powell, er að skoða leikmenn en hún er með 30 leikmenn í æfingabúðum þessa dagana.

Leikurinn hefst á rólegu nótunum og bæði lið að þreifa fyrir sér.  Eftir 10 mínútur hafa engin færi litið dagsins ljós og staðan enn markalaus.

Heldur betur lifnað yfir leiknum, sóknir á báða bóga og mikið fjör.  Margrét Lára átti gott skot á 13. mín sem markvörður Englands varði og strax í næstu sókn komust heimastúlku í færi en skutu framhjá.  Margrét Lára var svo aftur á ferðinni þremur mínútum síðar en var aðþrengd og féll við áður en hún náði skoti.  Englendingar áttu svo frábæra sókn á 23. mínútu en skot þeirra fór framhjár.

Hólmfríður Magnúsdóttir hefur komið Íslendingum yfir, hún fékk sendingu upp kantinn, lék inn í teiginn og kom boltanum framhjá enska markmanninum.  Markið kom á 29. mínútu leiksins.

England - Ísland 0 - 1

Það er kominn hálfleikur og Íslendingar leiða í hálfleik.  Leikurinn róaðist aðeins síðustu 10 mínúturnar af hálfleiknum en Englendingar komu boltanum að marki eftir hornspyrnu á 43. mínútu en Dóra María var allan tímann örugg á marklínunni og skallaði boltann í burtu.

Íslenska liðið er að spila vel, eru að halda boltanum vel innan liðsins, eitthvað sem Sigurður Ragnar lagði áherslu á fyrir leikinn.

Síðari hálfleikur er hafinn og er jafn fjörugur og fyrri hálfleikurinn.  Á 57. mínútu fékk Margrét Lára boltann á miðjum vallarhelmingi heimamanna, sér að markvörðurinn stendur framarlega og lætur vaða á markið.  Markvörður Englendinga mátti sig hafa alla við og blakaði boltanum yfir markið.  Tveimur mínútum síðar óð Ólína upp allan vinstri kantinn og kom boltanum fyrir þar sem Margrét Lára skaut naumlega framhjá.  Á 65. mínútu komust Englendingar í ákjósanlegt marktækifæri en Þóra Helgadóttir varði mjög vel í markinu.  Þóra er búin að eiga mjög góðan leik, er mjög örugg í öllum sínum aðgerðum.

Það eru 75 mínútur liðnar af leiknum og Ísland er með eins marks forystu.

England - Ísland 0 -2

Margrét Lára Viðarsdóttir var að skora annað mark Íslands á 81. mínútu.  Hún fékk góða sendingu frá Dóru Maríu Lárusdóttur, lék í átt að markinu og kláraði færið á glæsilegan hátt.  Dóra María fagnaði markinu og hljóp svo út af vellinum og Erla Steina Arnardóttir kom í hennar stað.

Á síðustu mínútu leiksins fékk svo Hólmfríður Magnúsdóttir dauðafæri en hitti boltann ekki vel og markvörður Englendinga varði örugglega.

Leiknum er lokið - England - Ísland 0 - 2