Byrjunarliðið gegn Englandi tilbúið
Íslenska kvennalandsliðið leikur á morgun vináttulandsleik við Englendinga og fer leikurinn fram í Colchester. Leikurinn hefst kl. 18:45 að íslenskum tíma og hefur Sigurður Ragnar Eyjólfsson tilkynnt byrjunarliðið fyrir leikinn.
Byrjunarliðið (4-5-1):
Markvörður: Þóra B. Helgadóttir
Hægri bakvörður: Erna B. Sigurðardóttir
Vinstri bakvörður: Ólína G. Viðarsdóttir
Miðverðir: Katrín Jónsdóttir, fyrirliði og Guðrún Sóley Gunnarsdóttir
Tengiliðir: Edda Garðarsdóttir, Dóra Stefánsdóttir og Sara Björk Gunnarsdóttir
Hægri kantur: Dóra María Lárusdóttir
Vinstri kantur: Hólmfríður Magnúsdóttir
Framherji: Margrét Lára Viðarsdóttir
Edda Garðarsdóttir heldur upp á 30 ára afmæli sitt í dag og það gerir einnig Sif Atladóttir sem varð 24 ára í dag.
Leikurinn er liður í undirbúningi þjóðanna fyrir úrslitakeppni EM í Finnlandi sem fer fram í ágúst og september. Íslenska liðið leikur svo einnig vináttulandsleik við Dani á sunnudaginn.
Dagurinn á morgun er annasamur í meira lagi hjá landsliðum Íslands. Auk þessa leiks leika stúlkurnar í U19 í úrslitakeppni EM í Hvíta Rússlandi við Svía og má sjá byrjunarliðið annars staðar hér á síðunni. Þá leika einnig strákarnir í U18 við Svía á Svíþjóðarmótinu.