• mán. 13. júl. 2009
  • Landslið

Markalaust jafntefli gegn Noregi

Hópurinn hjá U19 kvenna á æfingu í Hvíta Rússlandi fyrir úrslitakeppnina í júlí 2009
U19 kvenna EM Hvíta Rússland júlí 2009

Íslenska U19 kvennalandsliðið lék í dag sinn fyrsta leik í úrslitakeppni EM U19 kvenna en keppnin er haldin í Hvíta Rússlandi.  Leikið var við Noreg í dag og lauk leiknum með markalausu jafntefli svo að fyrsta stigið er í höfn hjá íslenska liðinu.

Norska liðið byrjaði af krafti fyrstu 10 mínúturnar en íslenska liðið kom sér svo vel inn í leikinn og fyrri hálfleikurinn var nokkuð jafn.  Í þeim seinni var jafnræði með liðunum fram undir miðjan hálfleikinn en þá tók norska liðið völdin og pressaði nokkuð að marki Íslands.  Ekki sköpuðu þær sér opin marktækifæri að ráði en barátta íslenska liðsins var til fyrirmyndar í leiknum.

Leikurinn var vel sóttur af áhorfendum og bar nokkuð mikið á norskum áhorfendum á vellinum sem tekur 5.000 manns en alls voru 3.850 áhorfendur á þessum leik.

Næstu mótherjar Íslendinga eru Svíar en þeir töpuðu fyrir Englendingum í dag, 0 - 3, en leikið verður á fimmtudaginn.

Textalýsing var hér á heimasíðunni og má sjá hana hér að neðan.

 

Ísland - Noregur - Textalýsing

Leikurinn er hafinn en honum seinkaði um 5 mínútur.  Íslenska liðið kom aðeins of seint á leikstað vegna mikillar umferðar og var leiknum seinkað af þeim sökum.

Fyrir leikinn voru það þrjár konur í þjóðbúningum sem afhentu fyrirliðum liðanna brauð og salt sem táknar mikla fengsæld í Hvíta Rússlandi.

Leikurinn hefst af krafti og strax á 1. mínútu þurfti Anna Þórunn að yfirgefa leikvöllinn til aðhlynningar eftir að hafa lent í harðri tæklingu.  Hún kom inná þremur mínútum síðar og heldur áfram leik.  Á 3. mínútu komu Norðmenn svo boltanum í netið en markið var dæmt af vegna rangstöðu.  Meiri kraftur í norska liðinu í byrjun en það stendur vonandi til bóta.

Leikurinn hefur jafnast og eftir 19 mínútur ákvað dómari leiksins, sem kemur frá Kazakstan, að nota tækifærið þegar Birna markvörður þurfti að laga skóbúnað sinn og hleypti öllum leikmönnum til að drekka vatn.  Sólin er farin að láta sjá sig öðru hverju og verður ansi heitt að hún skín í gegn.  Engin opin færi hafa litið dagsins ljós en Norðmenn heldur skeinuhættari ef eitthvað er.  En staðan ennþá 0-0 eftir 20 mínútur.

Eftir hálftíma leik er staðan ennþá 0-0.  Besta færi leiksins kom á 28. mínútu þegar að Dagný Brynjarsdóttir komst í gott færi eftir góða sókn íslenska liðsins en skaut naumlega framhjá.

Það er kominn hálfleikur og staðan er markalaus.  Það skall hurð nærri hælum á 45. mínútu þegar að Norðmenn áttu þrumuskot í þverslá íslenska marksins eftir vel útfærða aukaspyrnu.  Mínútu síðar átti svo Bergling Björg gott skot rétt yfir markið og stuttu síðar var blásið til leikhlés.

Eftir 62 mínútur er staðan enn markalaus.  Íslenska liðið fékk gott færi eftir fimm mínútna leik þegar að Fanndís komst í færi eftir góða sendingu frá Elínborgu en skot Fanndísar fór naumlega framhjá.  Fimm mínútum síðar vildu Norðmenn fá vítaspyrnu en dómarinn var ekki sammála því og leikurinn hélt áfram.  Það var svo á 62. mínútu að Norðmenn komust í ágætis marktækifæri en boltinn smaug réttu megin við stöngina að mati Íslendinga.

Þegar 10 mínútur eru eftir af leiknum er staðan enn markalaus en norska liðið hefur þó undirtökin þessar mínútur.  Birna hefur verið örugg í sínum aðgerðum í markinu og gripið vel inn í en norska liðið hefur ekki skapað sér opin marktækifæri þessar mínútur.  Íslenska liðið beitir skyndisóknum og Fanndís skapar oft usla í vörn Norðmanna með hraða sínum.

Aðeins uppbótartími eftir og hefur 4. dómari gefið merki um að það verði þrjár mínútur.  Mikil barátta hjá íslenska liðinu en norska liðið sækir meira.

Leikurinn hefur verið flautaður af og úrslitin markalaust jafntefli.  Fyrsta stigið í höfn og getur íslenska liðið nokkuð vel við unað.  Norska liðið sótti heldur meira í leiknum en vörn og markvarsla stóðu fyrir sínu.  Síðustu marktilraunina áttu þó Íslendingar þegar að Andrea Ýr Gútstavsdóttir tók innkast með heljarstökki og boltinn barst til Fanndísar sem að skaut framhjá.

Keppnin á uefa.com