• mið. 01. júl. 2009
  • Landslið

Þýska liðið of stór biti fyrir stelpurnar í U17

Byrjunarlið Íslands gegn Noregi á Norðurlandamóti U17 kvenna í Svíþjóð 29. júní 2009.
U17_kvenna_NM_2009

Íslenska stúlknalandsliðið skipað leikmönnum 16 ára og yngri lék gegn Þjóðverjum í gær á opna Norðurlandamótinu sem fram fer í Svíþjóð. Fyrirfram var ekki reiknað með miklu af hálfu íslenska liðsins, enda það þýska gríðarsterkt og líklegt til afreka á mótinu.

Jafnræði var með liðunum fyrstu 15 mínútur leiksins, þá léku íslensku stúlkurnar afar skynsamlega, beittu skyndisóknum og pressuðu þýska liðið alveg upp að þeirra eigin vítateig. Þessi aðferðarfræði íslenska liðsins setti það þýska örlítið út af laginu en á 15. mínútu náðu þær þýsku að brjóta varnarmúr Íslands á bak aftur og skoruðu fyrsta markið. Við það var eins og flóðgáttir opnuðust og þýsku stúlkurnar bættu við mörkum á 17., 23., 28. og 38. mínútu og máttu íslensku stelpurnar sætta sig við að fara inn í leikhlé með 5-0 á bakinu.

Þorlákur Árnason hélt þrumuræðu yfir sínum leikmönnum í leikhléinu og ræðan sú hafði góð áhrif á liðið sem mætti einbeitt og viljugt til síðari hálfleiks. Einbeitingin skein af íslensku stelpunum sem lokuðu á hverja sóknarlotu þýska liðsins á fætur annarri og fór það greinilega mjög í taugarnar á þýska liðinu. Þessi frammistaða íslenska liðsins hélt þó ekki út allan leiktímann því tíu mínútum fyrir leikslok fékk Fjolla Shala, leikmaður Íslands, boltann í höndina innan vítateigs og vítaspyrna var dæmd. Það dugði þó ekki til því Fjolla fékk að líta sitt annað gula spjald í leiknum og þar með rauða spjaldið. Þjóðverjar skoruðu úr vítinu en lengra komust þær ekki gegn 10 manna íslensku liði sem gat gengið þokkalega hnarreist af velli eftir prýðisgóðan síðari hálfleik.

Leikskýrsla