• mið. 01. júl. 2009
  • Dómaramál

Guðrún Fema dæmdi Frakkland - Finnland í gær

Dómarar leiða lið Þýskalands og Englands til vallar fyrir úrslitaleik EM U19 kvenna á Íslandi
Domarar_i_urslitum_U19_kvenna

Guðrún Fema Ólafsdóttir dæmdi í gær sinn fyrsta opinbera landsleik á Opna Norðurlandamóti U17 kvenna í knattspyrnu sem fram fer í Sunne í Svíþjóð. Þetta er jafnframt fyrsta alþjóðlega verkefni sem kemur í hlut íslensks kvendómara. 

Hún dæmdi leik Finnlands og Frakklands, sem lauk með 1-4 sigri Frakkanna en Finnar höfðu hinsvegar forystu í hálfleik.

Guðrún Fema stóð sig með prýði í þessu verkefni og fékk góða umsögn hjá eftirlitsdómara leiksins.  Sömu sögu höfðu forrráðamenn Frakka og Finna að segja þegar að fararstjóri íslenska liðsins spurðist frétta af frammistöðu Guðrúnar.

Það er ánægjulegt að þetta vígi skuli vera fallið en mikil vakning hefur verið hjá konum varðandi dómgæslu og fyrir skömmu varð Bryndís Sigurðardóttir fyrsti íslenski kvendómarinn til að komast á FIFA dómaralistann.