Tap gegn Noregi hjá U17 kvenna
Stelpurnar í U17 kvenna báðu lægri hlut gegn Norðmönnum í fyrsta leik Norðurlandamóts U17 kvenna sem haldið er í Svíþjóð. Lokatölur urðu 5 - 2 fyrir norska liðið eftir að þær höfðu leitt í hálfleik, 4 - 2.
Fyrri hálfleikur var heldur betur fjörugur en íslenska liðið fékk tvö dauðafæri áður en Norðmenn skoruðu fyrsta markið á 11. mínútu. Hulda Sigurðardóttir jafnaði hinsvegar leikinn aðeins mínútu síðar með glæsilegu skoti frá vítateig. Norðmenn björguðu svo á línu á 17. mínútu en norsku stelpurnar komust svo yfir tveimur mínútum síðar. Þar var að verki María Þórisdóttir en hún er dóttir Þóris Hergeirssonar, landsliðsþjálfara kvennalandsliðs Noregs í handknattleik. Á 25. mínútu jafnaði svo Ásta Eir Árnadóttir metin með öðru glæsimarki Íslendinga.
Á 22. mínútu kemur svo þriðja mark Noregs og fjórða markið sjö mínútum síðar. Þannig var svo staðan í leikhléi eftir heldur fjörugan fyrri hálfleik. Heldur var rólegra yfir síðari hálfleiknum en íslensku stelpurnar freistuðu þess að jafna leikinn. Ásta átti þrumuskot rétt fyrir snemma í síðari hálfleik og stuttu síðar skaut Freyja Viðarsdóttir í þverslá. Inn vildi boltinn ekki en Norðmenn skoruðu eina mark síðari hálfleiks þegar að María Þórisdóttir skoraði sitt annað mark í leiknum.
Næsti leikur Íslands fer fram í dag, þriðjudag, en þá eru það Þjóðverjar sem verða mótherjarnir. Leikurinn hefst kl. 19:00 að staðartíma eða kl. 17:00 að íslenskum tíma. Aðstæður eru hinar ágætustu í Svíþjóð þessa stundina, þó svo hitinn sé í hærri kantinum en hann var um 28 gráður þegar að leikur hófst.