Knattþrautir á Ísafirði
Gunnar Einarsson knattspyrnumaður ferðast um landið á vegum KSÍ í sumar og kynnir knattþrautir KSÍ, sem ætlaðar eru fyrir 5. flokka karla og kvenna. Gunnar mun heimsækja félögin og fara yfir knattþrautirnar með iðkendum og þjálfurum.
Í dag, þriðjudag kl. 11:00, verður Gunnar á Ísafirði, þar sem hann kynnir knattþrautirnar fyrir þjálfurum og iðkendum. Klukkan 14:00 verður hann svo í Bolungarvík í sömu erindagjörðum.
Á mánudag var hann á Patreksfirði og þangað komu einnig krakkar frá Tálknafirði. Á miðvikudag verður hann hjá Fram í Reykjavík og hjá Haukum í Hafnarfirði á fimmtudag.
Gunnar kynnir knattþrautirnar einu sinni á hverjum stað fyrir sig og þjálfurum á viðkomandi stöðum er síðan ætlað að láta iðkendurna spreyta sig oftar yfir sumarið. Þjálfari hvers flokks heldur utan um þátttöku og sendir upplýsingar til KSÍ. Þeir iðkendur sem taka þátt í knattþrautunum a.m.k. þrisvar sinnum í sumar fá sent viðurkenningarskjal frá KSÍ. Þjálfarinn sér um að senda nöfn viðkomandi.
Aðalmarkmiðið með knattþrautum er að fá börn til að vera dugleg að æfa knatttækni sína og fá þjálfara til að leggja áherslu á tækniþjálfun í þjálfuninni hjá sér. Knattþrautirnar eru hannaðar til að hjálpa leikmönnum að bæta tækni, knattrak, skallatækni, sendingar og skottækni svo eitthvða sé nefnt.