• þri. 09. jún. 2009
  • Landslið

Æft á keppnisvellinum í dag

Sigurmarki Íslendinga gegn Norður Írlandi vel fagnað
Marki_fagnad_N_Irland

Íslenska landsliðið æfði í dag á keppnisvellinum, Philip II of Macedon, í Skopje.  Mjög heitt er í veðri, um 37 stiga hiti og ekki ský á lofti.  Leikurinn hefst á morgun kl. 15:45 að íslenskum tíma og verður í beinni útsendingu á sjónvarpsstöðinni Stöð 2 Sport.

Ágætlega fer hinsvegar um hópinn í Skopje þó svo að hitinn setji dálitið strik í reikninginn.  Hinum tónelska búningastjóra, Birni Ragnari Gunnarssyni, brá hinsvegar nokkuð í brún í dag þegar hann festist í hótellyftunni.  Þar sem þetta er glerlyfta var hann vel sýnilegur hótelgestum þar á meðal nuddara íslenska liðsins, Óðni Svanssyni.  Sökum mikils hita gat Óðinn þó ekki brugðist skjótt við og þurfti búningastjórinn að dúsa í lyftunni í góðar 20 mínútur.  Búningastjórinn ætlar að notast við hótelstigana sem eftir er ferðarinnar.

Landsliðsmennirnir Stefán Gíslason, Emil Hallfreðsson og Garðar Jóhannsson hafa verið í stöðugri meðferð hjá lækni og sjúkraþjálfara íslenska liðsins.  Ágætlega lítur út með þá Stefán og Emil en meiri óvissa er um Garðar en ákvörðun um hvort þeir verði leikhægir bíður morgundagsins.