Landsliðið komið til Skopje
Íslenska karlalandsliðið er nú komið til Skopje í Makedóníu en framundan er leikur í undankeppni HM 2010 við heimamenn. Leikurinn fer fram miðvikudaginn 10. júní og hefst kl. 15:45 að íslenskum tíma. Leikurinn verður í beinni útsendingu á sjónvarpsstöðinni Stöð 2 Sport.
Landsliðið kom til Skopje í dag en liðið hélt utan í gær og gisti í London yfir nóttina. Liðið hélt svo þaðan eldsnemma í morgun til Prag og lenti loks í Skopje um hádegið á íslenskum tíma. Mikill hiti er í borginni eða um 35 stiga hiti. Búningastjóranum ylhýra, Birni Ragnari Gunnarssyni, þykir nóg um þennan hita en gaf sér samt tíma til þess að senda okkur myndina hér að neðan.