U21 karla leikur gegn Dönum í dag
Í dag kl. 12:30 að íslenskum tíma mæta Íslendingar Dönum í vináttulandsleik landsliða U21 karla. Leikið verður í Álaborg á heimavelli AaB.
Þetta er fyrsti leikurinn undir stjórn Eyjólfs Sverrissonar eftir að hann tók að nýju við stjórntaumum liðsins.
Ísland og Danmörk hafa mæst í 6 skipti í þessum aldursflokki. Þrisvar sinnum hafa þjóðirnar gert jafntefli, Íslendingar hafa unnið einu sinni en Danir tvisvar og hafa þeir sigrar komið í síðustu tveimur viðureignum þjóðanna.
Byrjunarliðið (4-5-1):
Markvörður: Þórður Ingason
Hægri bakvörður: Andrés Már Jóhannesson
Miðverðir: Hólmar Örn Eyjolfsson og Skúli Jón Friðgeirsson
Vinstri bakvörður: Hjörtur Logi Valgarðsson
Hægri kantur: Birkir Bjarnason
Vinstri kantur: Björn Daníel Sverrisson
Tengiliðir: Bjarni Þór Viðarsson, Guðmundur Kristjánsson og Guðlaugur Victor Pálsson.
Framherji: Rúrik Gíslason, fyrirliði
Textalýsing
Leikurinn er hafinn og fyrstu 10 mínútur leiksins þróast þannig að Danir sækja nokkuð stíft. Þeir hafa komist í tvö hálffæri þar af annað eftir hornspyrnu.
16. mín. Mark 1-0
Danir komast yfir með glæsilegu marki með skoti af um 30 metra færi og átti Þórður Ingason ekki möguleika í boltann.
30. mín.
Danir sækja heldur meira en Íslendingar eru farnir að færa sig framar á völlinn. Á 25. mínútu komst Birkir Bjarnason í þokkalegt færi en markvörður Dana bjargaði með úthlaupi.
40. mín.
Mikil pressa að marki Íslendinga þessa stundina. Okkar menn bjarga á línu og Danir sækja stíft.
41. mín. Mark 2-0
Danir bæta við marki og lá það í loftinu. Þeir áttu skot að marki sem breytti um stefnu á leikmanni Íslendinga og í netið.
43. mín. Mark 2-1
Bjarni Þór Viðarsson hefur minnkað muninn úr vítaspyrnu. Brotið var á Rúrik Gíslasyni innan vítateigs og á punktinn steig Bjarni Þór Viðarsson og skoraði. Stuttu síðar flautaði norski dómarinn til leikhlés.
50. mín.
Íslendingar mæta virkilega grimmir til síðari hálfleiks og sækja mun meira heldur í þeim fyrri þessar fyrstu mínútur. Ein breyting var gerð á liðinu í hálfleik, Guðmundur Kristjánsson fór af velli og í hans stað kom Finnur Orri Margeirsson.
55. mín. Mark 2-2
Skúli Jón Friðgeirsson hefur jafnað metin. Eftir góða sókn bjarga Danir naumlega í horn. Úr hornspyrnunni er það Skúli Jón sem skorar og jafnar leikinn. Vonandi ná strákarnir að fylgja eftir þessari góðu byrjun á hálfleiknum.
70. mín.
Leikurinn í góðu jafnvægi en Íslendingar eru töluvert beittir. Íslenska liðið vildi fá vítaspyrnu á 69. mínútu þegar Birkir Bjarnason var að komast í gott færi en stjakað við honum svo hann náði ekki skoti. Norski dómarinn var hinsvegar ekki sammála þessari greiningu Íslendinga.
77. mín. Mark 3-2
Danir hafa komist yfir að nýju. Eftir vandræðagang í vörninni fann boltinn einhvern veginn leiðina í netmöskvana, framhjá þremur íslenskum leikmönnum.
Leiknum er lokið með sigri heimamanna, 3-2. Íslenska liðið sótti nokkuð á lokakaflanum en náði ekki að skapa sér opin marktækifæri.