Skylmingaatriði sýnd fyrir leikinn á laugardag
Fyrir landsleik Íslands og Hollands á laugardag verður haldin mikil sýning á skylmingum, en hér á landi eru nú haldnar alþjóðlegar æfingabúðir í skylmingum með höggsverði í skylmingamiðstöðinni í Laugardal, sem er í gamla Baldurshaganum á Laugardalsvelli. Dagana 6.-7. júní er svo haldið alþjóðlegt mót í skylmingum.
Sýnt verður sérstakt sýningaratriði í skylmingum og þá munu fjórir hópar skylmingamanna setja á svið orrustu. Allt mun þetta fara fram á hlaupabrautinni á Laugardalsvelli fyrir leik. Sýningin hefst kl. 18:10, þannig að það er um að gera að vera mættur snemma á svæðið, fá sér eitthvað gott í gogginn og hita vel upp fyrir leikinn sjálfan. Munið eftir bláa fatnaðinum!
Sabre on Ice and Fire – Alþjóðalegar æfingabúðir
Viking Cup 2009
Vikuna 1.-5. júní nk. verða haldnar alþjóðlegar æfingabúðir í skylmingum með höggsverði í Skylmingamiðstöðinni í Laugardal. Skylmingasamband Íslands í samvinnu við alþjóðlega styrktarsjóðinn, “Future of fencing” og Alþjóðlega skylmingasambandið, FIE, stendur að æfingabúðunum. Á milli 40-50 erlendir þátttakendur frá 30 löndum munu taka þátt í æfingabúðunum ásamt íslenskum skylmingamönnum. Þjálfarar í æfingabúðunum eru fremstu þjálfarar í heimi. Þetta er í fyrsta skipti sem æfingabúðir í skylmingum með höggsverði af þessari stærðargráðu eru haldnar í heiminum. Það er mikill heiður fyrir íslenskar íþróttir að Future of fencing og Alþjóðlega skylmingasambandið hafi valið að halda æfingabúðirnar í Skylmingamiðstöðinni í Laugardal. Skylmingamiðstöðin er glæsilegasta aðstaða til skylmingaiðkana í heiminum og á Reykjavíkurborg heiður skilinn fyrir uppbyggingu miðstöðvarinnar.
Helgina 6.-7. júní nk. verður haldið alþjóðlegt mót í skylmingum með höggsverði í Laugardalshöll. Mótið kallast Viking Cup og gefur stig á stigalista Alþjóðlega skylmingasambandsins. Þátttakendur í æfingabúðunum munu allir taka þátt í mótinu og verður mótið því mjög sterkt. Þetta er í fjórtánda sinn sem mótið er haldið á Íslandi.